Húseigendafélagið rekur sérhæfða lögfræðiþjónustu fyrir félagsmenn sína á þeim réttarsviðum, sem varða fasteignir og eigendur þeirra. Lögfræðiþjónustan hefur verið þungamiðjan í starfsemi félagsins síðustu áratugi. Býr félagið yfir mikilli og sérhæfði þekkingu og reynslu á þessum sviðum lögfræðinnar. Fyrir lögfræðiþjónustuna er tekin þóknun samkvæmt tímagjaldi, sem er verulega lægra en hjá sjálfstætt starfandi lögmönnum. Félagsgjaldið er því mjög fljótt að skila sér til baka með því og það oft margfalt. 
 

Eftirtaldir málaflokkar koma aðallega til kasta lögfræðiþjónustunnar:

I.    Fjöleignarhús og eigendur þeirra, húsfélög, samskipti eigenda o.fl.

II.    Fasteignakaup, einkum gallamál

III.    Húsaleigumál 

IV.    Mál vegna vanefnda byggingaraðila og verktaka við framkvæmdir 

V.    Málarekstur fyrir kærunefnd húsamála og aðstoð   við rekstur mála í stjórnsýslunni 

VI.    Grenndarmál af ýmsum toga


Lögfræðiþjónustan er mjög eftirsótt og því þarf að setja henni ákveðnar skorður. Hún er aðallega hugsuð sem ,,fyrsta hjálp“, þ.e. að aðstoða félagsmenn við að skilgreina vandamál sín og átta sig á réttarstöðu sinni og leiðbeina þeim veginn áfram. Ef mál vinda upp á sig og verða viðamikil og tímafrek, þá verður félagið að meginstefnu til að vísa þeim til starfandi lögmanna. Rekstur dómsmála fellur almennt utan ramma lögfræðiþjónustu félagsins. Eftirspurn eftir lögfræðiþjónustunni er mikil og algengt er að tugir nýrri mála berist í viku hverri. Sum erindi eru þess eðlis að hægt er að afgreiða þau í einum viðtalstíma, en flest kalla þau á meiri vinnu, yfirlegu, rannsóknir, gagnaöflun, úrvinnslu, skjalagerð og skriftir, bréfaskriftir, álitsgerðir, fundahöld o.fl. Vinna við einstök mál getur því verið frá hálfri klukkustund eða jafnvel minna og allt að mörgum klukkutímum eftir eðli og umfangi. 

 

•    Tímagjaldið er kr. 14.000.- en fyrir fyrsta viðtalstíma (30 mínútur) og verk sem taka 30 mínútur eða skemmri tíma er þóknun kr. 12.500.-

•    Fyrir lögfræðivinnu utan skrifstofu og/eða utan venjulegs vinnutíma reiknast allt að 50% álag á tímagjaldið. 
•    Svör við fyrirspurnum sem berast í tölvupósti eða símleiðis eru almennt gjaldfrjáls. Sé fyrirspurn hins vegar beint til lögfræðings er tekið gjald fyrir svarið. 
•    Ef viðtalstími er bókaður en ekki nýttur, og forföll eru ekki boðuð, áskilur félagið sér rétt til þess að innheimta gjald fyrir tímann. Ef viðkomandi á inni viðtalstíma, verður hann felldur niður í staðinn. 
•    Yfirleitt er miðað við 1 – 4 klukkustunda vinnu við hvert mál. Séu mál umfangsmeiri og tímafrekari falla þau almennt utan marka lögfræðiþjónustunnar og er þeim þá vísað til starfandi lögmanna enda er félagið ekki lögfræðistofa heldur hagsmunafélag sem veitir félögum sínum niðurgreidda lögfræðiaðstoð að ákveðnu marki. 

Undanfarna tvo áratugi hefur það verið þýðingarmesti þátturinn í hagsmunabaráttu félagsins að vinna að réttarbótum á þeim réttarsviðum sem snerta fasteignir og eigendur þeirra. Á því sviði hefur félagið unnið marga góða sigra húseigendum til hags og heilla. Er það fyrst að nefna gildistöku laga um fjöleignarhús og húsaleigulaganna í ársbyrjun 1995, en félagið átti frumkvæði að samningu og setningu þeirra. Formaður félagsins, Sigurður Helgi Guðjónsson hrl., er höfundur laganna um fjöleignarhús og jafnframt aðalhöfundur nýrra húsaleigulaga. Auk þess samdi Sigurður reglugerð um eignaskiptayfirlýsingar, sem tók gildi um áramótin 2000 og 2001 og hafði miklar réttarbætur í för með sér. 

Áralöng barátta félagsins fyrir setningu laga um fasteignaviðskipti bar árangur á árinu 2002 þegar Alþingi setti í fyrsta sinn lög um fasteignakaup. Fram að þeim tíma höfðu ekki gilt sérstakar skráðar reglur á þessu mikilvæga réttarsviði, heldur byggðist réttarstaða manna á ýmsum óskráðum meginreglum og dómafordæmum. Fyrir vikið gat réttarstaðan í ýmsum tilvikum verið óljós. Með setningu vandaðra og ítarlegra laga um fasteignakaup var margs konar réttaróvissu því eytt og hefur vafatilvikum og dómsmálum fækkað í þessum málaflokki. Sigurður Helgi Guðjónsson hrl., formaður Húseigendafélagsins, vann að gerð laganna en höfundur þeirra var Viðar Már Matthíasson lagaprófessor og dómari við Hæstarétt Íslands. 

PANTA ÞJÓNUSTU


Ágæti félagsmaður til að panta þjónustu, vinsamlega skráðu þig inn á innrasvæði heimasíðunar.
Þú getur sótt um aðgang að innrasvæði síðunnar á forsíðu.