Fólk og dýr í fjölbýli

Um hunda, ketti, blindan hrút og ást í meinum.

Til Húseigendafélagsins rata mörg deilumál vegna dýra í mannheimum, einkum hunda og katta í fjölbýli, sem valda ama og ónæði og úlfúð. Þau dýr hafa fylgt manninum frá örófi og sú taug er römm og inngróin. Það er talinn allt að því helgur réttur manna að halda gæludýr en sá réttur er ekki alger og takmarkast af rétti granna til að lifa eðlilegu og heilbrigðu lífi án ónæðis og óþæginda, sem af dýrum getur stafað.. Það fylgir því mikil ábyrgð að halda hunda og ketti, bæði gagnvart dýrunum sjálfum og eins gagnvart umhverfinu og fólki sem í námunda er.
 
Reglur og löggjöf. Tillitssemi. Umburðarlyndi. Ást og andúð
Dýr eru haldin á fasteignum og þess vegna fellur dýrahald undir grenndarrétt og fjöleignarhúsalögin ef um slík hús er að tefla. Um önnur gæludýr er ekki beinlínis fjallað í lögunum og gilda um þau almennar reglur sem byggja á hagsmunamati, sanngirni, tillitssemi og umburðalyndi. Um hunda og gilda einnig staðbundnar samþykktir sveitarfélaga um hunda og í sumum tilvikum líka ketti. Eiganda fasteignar ber að taka sanngjarnt og eðlilegt tillit til eigenda nálægra eigna. Annars vegar er réttur eiganda til að nýta eign sína á þann og aðhafast það sem hann vill. Á móti er réttur granna til að nýta sína eign í friði og án truflunar og óþæginda umfram það sem venjulegt er. Gott nábýli og sambýli byggist á málamiðlun þar sem gagnkvæmur skilningur, virðing, tillitssemi og umburðarlyndi leikast á. Sumir elska dýr út af lífinu meðan aðrir hafa ímugust og ógeð á þeim. Það er stutt stórra öfga á milli Dýraeigendur eru oft hirðulausari en góðu hófi gegnir. En á hinn bóginn eru dýrin líka blórabögglar og bitbein vegna þess að þau liggja vel við höggi og tilvist þeirra og tilvera er oft upp á náð og miskunn. Deilur um dýr þróast gjarnan í allsherjarstríð þar sem öllum vopnum er beitt, ekki bara kjafti og klóm.
 
Eignarrétturinn.
Eigandi í fjöleignarhúsi hefur ríkan rétt yfir séreign sinni og húsfélag hefur takmarkað vald til að ganga á þann rétt. Ef banna á öll gæludýr, ekki bara hunda og ketti, þarf það að byggjast á þinglýstu samþykki allra eigenda. Eigendur hafa lögvarinn rétt til að gera það sem þeir kjósa í íbúðum sínum ef það hefur lítið ónæði eða röskun í för með sér. Hér er komið að stjórnarskrárvernduðum eignarrétti sem felur í sér að mönnum sé frjálst að hagnýta eignir sínar á hvern þann hátt sem telst löglegur, eðlilegur og venjubundinn. Eigandi á almennt ekki lögvarða kröfu á því að nágrannar taki við hagnýtingu eigna sinna tillit til veikleika hans eða viðkvæmni. Mörkin milli þess, sem leyfilegt er og óleyfilegt, þess sem umlíða verður og þess sem ekki má, eru ákvörðuð samkvæmt almennum mælikvarða. Dýr, einkum kettir og hundar geta valdið ofnæmi. Talið er að 7,5 % fólks í þéttbýli hafi ofnæmi hafi fyrir köttum en 6% fyrir hundum.
 
Hundar og kettir í fjölbýli. Ný lög vorið 2011.
Hinn 15. apríl 2011 voru samþykkt lög á Alþingi um breytingu á fjöleignarhúsalögunum, sem taka almennt til hunda og kattahalds í fjölbýlishúsum og sérstaklega til leiðsögu- og hjáparhunda. Frumvarpið var samið af nefnd undir minni formennsku sem var falið að endurskoða fjöleignarhúsalögin almennt og sérstaklega varðandi hjálpar og leiðsöguhunda í fjölbýli. Var það í kjölfar fjölmiðlaumræðu þegar einn eigandi í fjölbýli á Akranesi beitti neitunarvaldi og stóð í vegi fyrir því að blind kona gæti haldið slíkan hund í húsinu.
 
Hjálparhundar.
Óhjáhákvæmilegt þótti að setja almennar reglur um hunda og kattahald í fjölbýli um leið og sérreglur um hjálpar og leiðsöguhunda. Með þessum nýju lögum er slegin skjaldborg um hjálparhunda og forgangsrétt þeirra sem þurfa á slíkum “hjálpartækjum” að halda. Var neitunarvald einstakra eigenda afnuminn og réttur hinna fötluðu látinn ganga framar.Hjálparhundar eru eitt en gæluhundar annað. Sérstaða hjálpar og leiðsöguhunda er viðurkennd og sér þess víða stað. Það er t.d. heimilt að vera með þá á stöðum þar sem ekki má vera með hunda almennt á. Um það segir í heilbrigðislöggjöfinni og samþykktum sveitarfélaga. Leiðsögu og hjálparhundar eru sérvaldir og sérþjálfaðir. Til þeirra eru gerðar ríkar kröfur og þeir þurfa að gangast undir langa og stranga þjálfun og próf. Þeir eru gerðir ófrjóir svo kynhvötin trufli þá ekki í starfi. Mjög er vandað er til samvals og samþjálfunar hunds og þess fatlaða.
 
Rýmri réttur til hunda- og kattahalds.
Áður gat hver eigandi að geðþótta beitt neitunarvaldi þegar um sameiginlegan inngang eða stigagangur var að ræða. Með hinum nýju lögum er réttur til hunda- og kattahalds í fjölbýli rýmri en en fyrr.
Í fyrsta lagi þarf ekki samþykki sameigenda þegar íbúð hefur hvorki sameiginlegan inngang eða stigagang. Gildir það þótt lóðin sé sameiginleg og um sé að ræða annars konar sameiginlegt rými.
Í öðru lagi þarf samþykki 2/3 hluta eigenda fyrir hunda og kattahaldi þegar inngangur eða stigagangur er sameiginlegur. Áður þurfti samþykki allra í slíkum tilvikum.
Í þriðja lagi eru svo sérreglur um leiðsögu og hjáparhunda og er réttur til að halda slíkan hund aldrei háður samþykki meðeigenda. Sérþjálfaðir leiðsögu og hjáparhundar eru eins konar hefðarhundar. Takmarkanir í lögunum gilda ekki um þá. Þeir eru miklu fremur hjápartæki en dýr. Í lögunum er vörðuð leið ef hundur(hjálparhundur eða annar hundur) veldur íbúa hússins óbærilegu ofnæmi. Rekist slíkir hagsmunir á kemur til kasta kærunefndar húsamála og sérfræðinga.
 
Hunda- og kattaeigendur standi sig.
Þessi rýmkun í 2/3 var ekki upphaflega í frumvarpinu, heldur kom það inn í það á lokasprettinum í þinginu. Þetta er mikil réttarbót fyrir þá sem halda vilja þessi dýri í fjölbýli en vekur á hinn bóginn ugg í brjósti þeirra sem eru andvígir dýrahaldi í fjölbýli af einhverjum ástæðum. Sumir telja að hunda- og kattamenning hér á landi sé ekki það þróuð að réttlæti svona rýmkun. Í því efni sé langt í land. Tillitsleysi og yfirgangur gagnvart grönnum og hirðuleysi um dýr sé landlægt og sóða-og slóðaskapur gæludýraeigenda sé mikill og viðblasandi. Það má að sumu leyti til sanns vegar færa en spyrjum að leikslokum. Nú verða verða hunda- og kattaeigendur að standa sig og sanna að þeir séu ábyrgir og verðugir þessar réttarrýmkunar.
 
Réttarbót eða réttarspjöll. Strangari kröfur.
Dýrahald í þéttbýli fjölbýli er umdeilt og heitt mál, ekki síst í fjölbýli þar sem umburðarlyndi og tillitssemi stíga línudans. Oft má lítið út af bera. Hundar og kettir valda tíðum ónæði og sóða út. Yfirleitt er það sök eigenda sem ekki standa sig. Það er ekki auðvelt að móta og setja reglur um dýrahald í fjölbýli. Mörg andstæð sjónarmið leikast og rekast þar á. Réttarbót og rýmkun fyrir einn getur birst öðrum sem réttarspjöll. Skoða verður málið heildstætt út frá öllum sjónamiðum sem reynir á í samskiptum og sambýli manna og dýra. Má vel segja að þessi rýmkun sé prófraun um það á hvaða stigihunda menning (og katta) er og hvort dýraeigendur séu nægilega ábyrgir og þroskaðir til að taka við og fara með aukinn rétt og aukið frelsi. Nýju lögin fela í sér verulega rýmkun að ræða frá því sem áður gilti. Hundar og kettir eru velkomnari í fjölbýli eftir en áður en móti þessari rýmkun koma strangari reglur. Það er hert á kröfum, reglum og viðmiðum, um tillitssemi og góða siði eigenda. Þeir verða að standa sig og sýna ábyrgð og taka ríkt tillit til sameigenda sinna. Annars er tilvist dýranna í húsinu í hættu. Ef hunda og kattaeigendur rísa ekki undir þessri ábyrgð og deilur og úlfúð verða ríkjandi má búsast við því að þessi rýmkun og réttarbót eigi undir högg að sækja og þá gæti vel komið til þess að löggjafinn taki hana til baka.
 
Efnisatriði og nýmæli .
1) Samþykkið getur verið fólgið í almennu leyfi eða sérstöku, þ.e. veitt einstökum eiganda
vegna tiltekins dýrs og gildir leyfið þá fyrir ákveðið dýr meðan það lifir.
2) Samþykki er óafturkallanlegt að óbreyttum forsendum en ef forsendur breytast verulega, t.d. ef
óþægindi og ónæði eykst úr hófi eða ofnæmi kemur upp, þá geta sameigendur afturkallað samþykki
sitt.
3) Það er nauðsynlegt að þinglýsa samþykki fyrir hunda og kattahaldi gagnvart síðari eigendum.
4) Skammtímaheimsóknir hunda og katta eru heimilar meðan enginn mótmælir því. En vistun yfir
nótt er háð leyfi húsfélagsins.
5) Við veitingu leyfis og samþykkis ber að gæta jafnræðissjónarmiða og ekki má mismuna eigendum.
6) Samþykki verður að liggja fyrir áður en dýrið kemur í húsið.
7) Leyfi frá sveitarfélagi samkvæmt samþykktum þess verður að vera klárt áður en dýrið kemur í hús.
8) Hundar og kettir mega ekki vera laus í sameign eða á sameiginlegri lóð nema í bandi þegar þau eru
að koma eða fara frá íbúð. Lausaganga og ráf er litið alvarlegum augum.
9) Það er skilyrði að vel sé búið og hugsað um dýrin og þess gætt að þau verði ekki til ama og
óþæginda fyrir aðra íbúa.
10) Húsfélag getur sett hunda og kattahaldi frekari skilyrði og skorður ef það er gert með eðlilegum
og málaefndalegum reglum og samþykktum og reisum á jafnræði.
11) Húsfélag getur jafnvel bannað dýrahald ef það velur verulegum baga og óþægindum og eigandi dýrsins þverskallast við að gera bót á.
12) Ef eigandi brýtur verulega af sér í dýrahaldinu varðar það afturköllun samþykkis eða leyfis og brottvikningu dýrsins úr húsinu. Við mjög gróf brot getur vera eiganda í húsinu verið í hættu. Það er þá hægt að krefjast þess að hann flytiji og selji íbúð sína.
 
Skrækjandi páfagaukur. Stjörnulögfræðingur.
 
Fyrir liggur álit kærunefndar húsamála vegna ónæðis sem íbúi taldi sig verða fyrir vegna háværra skrækja í stórum páfagauk í íbúðinni fyrir neðan. Kærunefndin komst að þeirri niðurstöðu að páfagaukur væri hvorki hundur né köttur og þess vegna ættu sérreglur laganna um slík dýr ekki við. Ekki fylgir sögunni hvort páfagaukurinn mjálmaði og gelti. Þá hefði hugsanlega komið til álita að beita lögjöfnun. Í áliti nefndarinnar segir : „Dýrahald innan eðlilegra marka, verður að teljast hluti af daglegu lífi manna í hýbýlum sínum. Það er álit kærunefndar að algert bann við páfagauk í íbúð gagnaðila sé slík skerðing á umráða- og afnotarétti eiganda séreignar að því verði ekki komið við nema með samþykki allra eigenda“. Þetta er vel og spaklega mælt. Ósannað þótti að skrækirnir væru hærri og meiri en eðlilegt er og fólk í fjölbýli verður að þola. Sem sagt: Páfagaukurinn vann með bravör. Þessi glæsti sigur bendir til þess að páfagaukurinn hafi flutt mál sitt sjálfur og tilheyri flokki stjörnulögfræðinga.
 
Ást í meinum. Blindur hrútur.
Einn allra geðþekkasti og hjartahlýjasti útvarpsmaður landsins tók fyrir nokkrum árum ástfóstri við blindan hrút í Dalasýslu. Hrúturinn hafði ráfað sumarlangt sjónlaus um Dali og fjöll og þraukað af. Útvarpsmaðurinn góðkunni sem ekkert aumt má sjá kolféll fyrir hrútnum og var það gagnkvæmt. Vildi hann ættleiða hrútinn og halda hann í þríbýlishúsi í Reykjavík. Leitaði hann til mín og ég hef ekki orðið vitni að tærara og fegurra sambandi manns og dýrs. Ást þeirra var göfug, ómenguð og hrein eins og drifhvít mjöll eða hjalandi lækur á fjalli. Ég vildi allt fyrir hann gera; mér rann blóðið til skyldunnar því ég er sjálfur hrútur og frekar sjóndapur. Því miður rann þetta út í sandinn því bannað er að halda sauðfé í Reykjavík. Ljósvíkingurinn gaf sig ekki fyrr en í fulla hnefana. Hann velti meira að segja fyrir sér að halda hrútinn í felum upp á hálofti, svona eins og Önnu Frank. Það var bæði rómantískt og stórmannlegt. En því miður, þetta var ást í meinum. Hrúturinn fór á vit feðra sinna og reikar nú sæll og sjáandi á hinum eilífu gresjum þar sem grasið er grænna og ærnar jafnvel meira sexý en rollurnar í Dölunum. Útvarpsmaðurinn geðþekki tregar enn sinn ástkæra blinda hrút. Saga þeirra er sannkölluð Fóstbræðrasaga og ef hrúturinn hefur heitið Þormóður, hver skyldi þá hinn geðþekki, hjartahreini og þýðróma, útvarpsmaður heita?
 
Lokaorð.
Dýr eru víða til gagns og gleði en geta á hinn bóginn verið verið til ama og vandræða ef eigendur þeirra eru ekki vandanum vaxnir og standa sig ekki í stykkinu. Dýrin bera eigendum sínum vitni. Einhver sagði að ekki séu til vond dýr, bara vondir dýraeigendur. Staðhæft er með réttu að hundurinn sé besti vinur mannsins. En ef maðurinn er besti vinur hundsins þá er ekki ofmælt að sá síðarnefndi eigi bágt. Ást manna á dýrum getur verið mikil og náð út yfir gröf og dauða. Lítil stúlka sagði í bænum sínum: ,,Ef það eru engir hundar í himnaríki, þá vil ég alls ekki fara þangað. Ég vil fara þangað þar sem þeir eru.“

#Hundarogkettir