Erindi um rafbíla og fjöleignarhús

Flutt af Sigurði Helga Guðjónssyni formanni Húseigendafélagsins á fræðslufundi á vegum Verkís þann 29. maí 2019. 

Komið þið öll sæl og margblessuð!
 
Ég þakka það góða framtak sem þessi samkunda er og það að fá að stíga á hér á stokk og láta mitt daufa ljós skína.
 
Ég er formaður Húseigendafélagsins sem tæprar aldargamalt fyrirbæri. Félagsmenn eru u.þ.b. 10 þúsund og eru húsfélög í fjöleignarhúsum u.þ.b. 800. Starfsemi félagsins er í meginatriðum  tvíþætt.  Í fyrsta lagi almenn hagsmunagæsla og í öðru lagi þjónusta við félagsmenn, þ.e. lögfræðiþjónusta, húsfundaþjónusta og leiguþjónusta
 
Almenna hagsmunabaráttan hefur í gegn um tíðina einkum verið fólgin í að stuðla að réttarbótum á þeim réttarsviðum sem snerta fasteignir. Má þar t.d. nefna löggjöfina um fjöleignahús frá 1994 með síðari breytingum.
 
Umræðuefnið hér er rafbílar og fjöleignarhús.
 
En fyrst ögn almennt um bílastæði fjöleignarhúsa.
 
Í fjölbýlishúsum hafa verið tíðir árekstrar vegna bílastæða utan og innan húss. Bílastæðin eru mörgum mikið hjartans mál. Bílaleign hefur margfaldast en stæðum ekki að sama skapi. Það er varla til það fjöleignarhús þar sem bílastæði eru nægilega mörg til að uppfylla ýtrustu kröfur og þarfir. Það kallar á línudans og málamiðlanir.
 
Bílstæði eru dýrmæt og oft nánast gulls ígildi eins og verða vill þegar eftirspurn er meira en framboð. Þegar menn eru útþenslusamir og frekari á stæði en eðlilegt getur talist er stutt í deilur og illindi.  Miklar tilfinningar tengjast bílum og bílastæðum. Bílastæðadeilur verða gjarnan mjög eldfimar og harðvítugar.  
 
Hvað bílastæði fjölbýlishúsa varðar  hefur löggjafinn í fjöleignarhúsalögunum frá 1994 sett meginreglur og grundvallarsjónarmið sem  varða veginn og leggja grunninn.
 
Bílastæði eru með tvennu móti: Sameiginleg sem er meginreglan og sérstæði. Bílastæði eru sameiginleg nema þinglýstar heimildir kveði á um annað.
 
Eigandi hefur einkarétt á stæði sínu og  öðrum eigendum ber að virða rétt hans.  Hann hefur þó ekki frjálsar hendur og honum ber að virða hagsmuni  annarra eigenda og fara að settum reglum og gæta þess við að valda öðrum eigendum ekki baga og óþægindum. Húsfélagið getur að vissu marki sett reglur um einkastæði. 
 
Réttur eigenda til hagnýtingar óskiptra bílastæða er lögum samkvæmt jafn. Allir eigendur hafa jafnan rétt til bílastæða. Einstökum eigendum verður ekki veittur aukinn réttur til bílastæða umfram aðra eigendur nema allir samþykki.
 
Reglur um afnot sameiginlegra bílastæða verða að vera  málefnalegar og gæta verður fyllsta jöfnuðar og að ekki sé raskað eðlilegum forsendum eigenda.    Slíkar reglur verða að vera almennt sanngjarnar  í garð allra eigenda og gæta verður jafnræðis.
 
Sameiginlegum bílastæðum verður ekki skipt formlega nema allir sem hlut eiga að máli  samþykki.   
 
Nú eru það blessaðir rafbílarnir og vandamál við hleðslu þeirra, sem eru á döfinni.  Var þó ekki á bílastæðaerjur og vandræði bætandi.
 
Nú eru í stórum og hástefndum orðum boðuð orkuskipti hvað bíla varðar. Árið 2030 er ögurstund í því efni. Þá á að loka á nýskráningu bíla sem nota jarðefnaeldsneyti, þ.e.  bensín- og díselbíla. Þá verða Díseldurgar og bensín svelgir nánast bannfærðir og útlægir gerðir.
 
Rafbílar eiga að vera framtíðin og við eigum öll að líða áfram á þeim í sælu og sátt við allt og alla og aðallega náttúruna og umhverfið.
 
Það er vitaskuld skynsamlegt og æskilegt. Um það verður ekki deilt.
 
Hins vegar er ljóst að stjórnvöld hafa ekki staðið sig í því að styrkja innviðina þannig að fagnaðarerindið um orkuskiptin og bílabyltinguna geti gengið snurðu lítið fyrir sig.  Þau hafa ekki búið í haginn og unnið heimavinnuna sína.
 
Rafbílum fjölgar ört og margir eigendur þeirra búa í fjöleignarhúsum. Eins er ljóst að væntanlegir kaupendur og notendur rafbíla munu að stærstum hluta búa í fjöleignarhúsum í framtíðinni. Það leiðir af hlutarins eðli enda býr meginhluti landsmanna í fjölbýlishúsum.
 
Vandamál hafa orðið og munu hrannast enn frekar upp í fjöleignarhúsum ef ekki verður brugðist við fljótlega með lagabreytingu sem opnar fyrir hleðslu rafbíla í slíkum húsum. Þar er og verður flöskuháls sem getur raskað og tafið boðaða rafbílavæðingu og verið gjöful uppspretta fyrir ólgu, deilur og samskiptavandamál.
 
Um síðustu árámót var vonum seinna sett á laggirnar nefnd til að yfirfara og endurskoða fjöleignarhúsalögin frá 1994. Var Húseigendafélagið búið að þrýsta á það mikið og lengi og þá loksins tók félagsmálaráðuneytið loks á sig rögg og  setti á laggirnar starfshóp með fulltrúum 3 ráðuneyta og frá sambandi ísl. sveitarfélaga og Húseigendafélaginu og er ég fulltrúi þess.
 
Ég þekki þessi mál gjörla enda samdi ég frumvarp það um föleignarhús sem varð að lögum 1994 og hef unnið að lagabreytingum og samningu reglugerða á því sviði í gegn um tíðina.
 
Fyrsta verkefni starfshópsins, sem er undir forystu starfsmanna félagsmálaráðuneytisins, er að semja frumvarp til breytinga á fjöleignarhúsalögunum með tilliti til rafbíla og gististarfsemi í fjöleignarhúsum. 
 
Upphaflega átti nefndin að skila af sér frumvarpi um þau atriði þann 1. mars s.l. en frumvarpsskilum var svo um það leyti slegið á frest fram á komandi haust.  Fram að því starfaði nefndin vel og ötullega, aflaði gagna og upplýsinga og fundaði oft, en með skilafrestinum datt vindurinn úr seglum hennar og fátt tíðinda af henni og frá henni og engin frumvarpsdrög hafa litið dagsins ljós. Vonandi verður sumarið nefndinni gott og notadrjúgt en um það hef ég þó efasemdir og áhyggjur.
 
Látum, skammtíma gististarfsemina liggja hér á milli hluta.
 
Rafbílamálið er miklu flóknara og tímafrekara, bæði lagalega og tæknilega og  kallar á upplýsingaöflun um tæknileg atriði, tengimöguleika, kostnaðinn o.fl.
 
Fjöleignarhús eru margskonar og mismunandi að stærð og gerð, þ.e.  bæði íbúðar- og atvinnuhús, með allt frá tveimur eignarhlutum upp í  hundruði  eignarhluta og svo blönduð hús. Sum hús hafa bílageymslur og bílskúra en önnur ekki og bílastæðin eru mjög mismunandi að gerð og eðli og yfirleitt  mjög af skornum skammti og fá til skiptanna. Það getur orðið snúið að móta samræmdar og skynsamlegar lagareglur um þetta atriði og skapa rafbílum og eigendum þeirra sérstöðu og einhvers konar forréttindi.
 
Eins og ég kom fyrr inná þá verður samkvæmt núgildandi lögum bílastæðum ekki skipt nema allir eigendur samþykki og sömuleiðis byggja lögin á jafnræði og segja að engum megi veita sérstök réttindi eða forgangsrétt um fram aðra nema fyrir liggi samþykki allra.
 
Þar liggur hundurinn fyrst og fremst grafinn og þar er flöskuhálsinn sem setur hleðslumöguleikum skorður og hamlar að því leyti rafbílavæðingu í slíkum húsum.  
 
Það verður líka að skoða málið með tilliti til og út frá öðrum innviðum og almennum hleðslumöguleikum og hvernig horfir í því efni. Hvað ætla sveitarfélögin og orkufyrirtækin að gera og hvaða hvata á að skapa og virkja til að liðka og flýta fyrir. Það virðist mjög á huldu.
 
Og vitaskuld verður að horfa til kostnaðarins, sem getur verið mjög mikill og hvort til greina komi að veita opinbera styrki og greiða hann niður eða jafna með einhverjum hætti.  Það er sem sagt í mörg hornin að líta.
 
Það var í sjónvarpsfréttum á dögunum greint frá hugmyndum um hleðslustöðvar í höfuðborginni og voru þær merktar með með mörgum flottum og fínum punktum á korti. Það er gott út af fyrir sig en hvort eitthvað raunhæft er að baki veit ég ekki. Þar er þó  vonandi eitthvað á döfinni.
 
Þar var líka sagt frá sjóði upp á 120 milljónir króna frá borginni og Orkuveitunni til að styrkja húsfélög til að setja upp hleðslustöðvar. Ég reyndi að skoða þetta en fann ekki neitt nema þessi fögru fyrirheit,  en orð eru jú til alls fyrst.
 
Uppsetning hleðslustöðva getur í sumum tilvikum og í sumum húsum verði mjög kostnaðarsöm þannig að þessi sjóður mun ef að líkum lætur til lítils hrökkva. Viðleitni er góðra gjalda verð en miklu meira og markvissara þarf til að koma.
 
Kannski kemur til greina að styrkja þetta átak með öðrum og víðtækari hætti, t.d. með því að endurgreiða vaskinn eins og gert hefur verið um viðhaldsverk.
 
Það er sem sagt mjög brýnt að breyta fjöleignarhúsalögunum strax og bjóða rafbíla velkomna í slík hús eða a.m.k. að gera einhvers konar ráð fyrir þeim og búa þannig lagalega um hnúta að það sé unnt og fært að hlaða þá heima.
Það er jú almennt talið a.m.k nú um stundir, að heimahleðsla rafbíla sé forsenda fyrir hinni almennu rafbílavæðingu.
 
Í sumum húsum er þetta auðvelt og er hægt án þess að lagabreyting þurfi að koma til en í flestum tilvikum þarf að varða leiðina með lagabreytingu og einhvers konar hvötum.
 
Þetta er sem sagt mjög aðkallandi og brýnt mál og þetta er þegar orðið bagalegt og valdið deilum og óróa í fjöleignarhúsum og ástandið á eftir að verða mjög slæmt og ill viðráðanlegt þegar rafbílavæðingin færist í aukana ef ekkert verður snögglega að gert.  
 
Alls kyns reddingar og hættulegar bráðalausnir hafa sést, leiðslur út um glugga, sem og illdeilur og tortryggni, menn nánast slást með köplum og innstungum og taka úr sambandi hver hjá öðrum vegna meints rafmagnsstuldar o.fl. o.fl.  Hálfgerð skeggöld og skálmöld vegna þessa virðist vera í uppsiglingu. Mönnum þykir vænt um bílinn sinn og eru reiðubúnir að leggja mikið í sölurnar fyrir hann.
 
Með breytingu á byggingarreglugerð er séð við þessu í nýbyggingum en í eldri húsum er þetta þegar orðið vandamál  eins og ég nefndi áður.
 
Auk þessa eru þessi mál oftar og oftar að koma upp í viðskiptum um íbúðir og í bílakaupum. Það er orðið ákvörðunarástæða margra kaupenda að tenging og hleðsla fyrir rafbíla sé fyrir hendi eða möguleg. Þá hafa möguleikar í því efni áhrif á hvort fólk kaupir sér rafbíla eða annars konar bíla. Það er ekki gott og ásættanlegt að svona atriði séu ráðandi forsenda í íbúðar-og bílakaupum. Það hamlar þróuninni og skekkir allt og allt.
 
Ég hef áður drepið á þau ákvæði fjöleignarhúsalaganna sem snerta bílastæði og jafnræði eigenda, sem geta staðið rafbílavæðingunni í vegi.
 
Því til viðbótar þarf að huga að reglum laganna um ákvarðanatöku þegar um dýran og óvenjulegan búnað er að ræða og verulega breytta hagnýtingu. Í slíkum tilvikum þarf yfirleitt samþykki allra eða aukins meirihluta eigenda.
 
Það reynist oft þrautin þyngri. Það er alltaf einhver eða einhverjir sem eru af gömlum, skolum og íhaldssamir og á móti nýjungum og fusssa á þær og þess þá frekast ef þær kosta mikið.  Fúll á móti stendur oft og gjarnan á sínu og hann og skoðanir hans eiga svo sem líka tilverurétt.
 
Norðmenn eru fremstir í flokki þjóða í rafbílalvæðingunni. Þessi vandamál hafa líka komið upp þar í landi. Þeir hafa nýlega breytt sinni löggjöf þannig að húsfélagi er skylt að verða við beiðni eigenda um hleðslustöð nema fyrir hendi sé ómöguleiki eða aðrar mjög afgerandi og málefndalegar ástæður mæli því gegn .Þeir hafa ekki treyst sér til þess að setja um þetta nákvæmari reglur vegna þess hve tilvikin, húsin og aðstæður eru mismunandi.  Þetta er meira svona stefnuyfirlýsing sem segir fátt en opnar þó leið og markar stefnuna.
 
Ég tel að okkur dugi ekki svona þröng og almenn glufa. Ég held að við þurfum nákvæmari og meira afgerandi reglur svo duga megi.
 
Já, tæknin geggjuð orðin er, var sungið um árið.
 
Lögin koma alltaf á eftir tækniþróuninni, sem er mikil og hröð á þessu sviði. Nú eru möguleikar komnir sem ekki voru fyrir hendi eða í augsýn fyrir nokkrum mánuðum, hvað þá nokkrum árum. Lausnir, sem áður kostuðu formúu og miklar breytingar og tilfæringar,  eru nú aðgengilegar og ódýrari en áður.
 
Sennilega verður í framtíðinni einfalt og ódýrt að hlaða rafbíla og pælingar okkar núna úreldast hratt.
 
Ég reikna með því að í upphafi bílaaldar hafi menn talið gott og nauðsynlegt að eiga bensíntunnu til að brynna bílum sínum heimavið. Þróunin hefur svo orðið í aðra átt og útrýmt tunnunum.
 
Kannski koma til þráðlausar hleðslustöðvar á hverju strái, hvur veit?
 
Hvað snertir almennu innviðina þá hlýtur að koma til álita að nota ljósastaura sem hleðslumiðlara.
 
Svo þarf að kanna hvað kerfið og heimtaugar ráða við. Mikilvægt hlýtur að vera að hlaða og nota rafmagnið utan álagstíma.
 
Nóg um þetta, ég er barn í tækni og hef lítið vit þegar að henni kemur. En það er hins vegar mjög gott og til eftirbreytni og fyrirmyndar að leiða saman lög og tækni eins og við erum að reyna hér.
Það hefur ekki reynt á hleðslumál rafbíla í fjölbýli fyrir dómstólum enn sem komið er. En kærunefnd húsamála hefur fengið slíkt mál á sitt borð. Í áliti hennar frá  því í desember s.l. var að vísu ekki tekin efnileg afstaða en í forsendum eru vangaveltur og spekúlasjónir sem eru fróðlegar og lýsandi fyrir ástandið og lagaumhverfið núna í stærri fjöleignarhúsum.  Hef ég í máli mínu komið inn á þau atriði en bendi áhugasömum að lesa það.
 
Eins og þið hafið eflaust merkt fyrir löngu þá hef ég takteinum fleiri spurningar en svör um þetta efni og biðst auðmjúklega forláts á því. Hér stend ég og get ekki annað. Ástandið í hleðslumálum rafbíla í fjölbýli er bara svona ruglingslegt og óreiðukennt.
 
Á fínu lagamáli heitir það réttaróvissa en á mannamáli bara tómt rugl, þvæla, vesen og vitleysa.
 
Að lokum þetta:
Orkuskiptin í samgöngum munu ekki ganga eins greitt og boðað hefur verið nema farið verði strax af fullri einurð, festu og viti í nauðsynlega innviðauppbyggingu. Annars eru stóru fyrirheitinn bara marklaus fagurgali upp í vindinn og fögur orð í ræðu og riti. Athafnir verða að fylgja orðum og fjálglegum fyrirheitum annars er bara allt í plati og pati eins og krakkarnir segja.
 
Stjórnvöld eru ótrúlega værukær í þessum efnum. Fyrirhyggja, ráðstafanir og lagaframsýni er lítil og í hávegum virðist hið séríslenska "þetta reddast hugarfar". Betur má ef duga skal.
 
Ég þakka gott hljóð og fyrir mig.