Félagið og kaupendur ekki saman í óvissuferð

„Þetta er ekki sameiginleg óvissuferð þar sem allir verði að taka ágjöfina.“ Þetta segir Sigurður Helgi Guðjónsson, formaður Húseigendafélagsins. Fullyrðingar stjórnar Félags eldri borgara í Reykjavík um að kaup félagsmanna á íbúðum sem félagið reisti í Árskógum í Breiðholti geti ekki talist hefðbundin fasteignaviðskipti eiga enga stoð í lögum. 

Líta svo á að kaupendur hafi myndað byggingafélag

Í tilkynningu sem Félag eldri borgara í Reykjavík sendi frá sér eftir stjórnarfund í gær segir að ekki sé hægt að líta á sölu eignanna í Árskógum sem hefðbundin fasteignaviðskipti í lagalegum skilningi. Verkefnið sé óhagnaðardrifið og hafi farið af stað eftir að listi lá fyrir yfir áhugasama kaupendur. Félaginu finnist nærtækast að líta á framkvæmdina sem sameiginlegt verkefni allra sem ákváðu að kaupa eign í Árskógum þó félag eldri borgara hafi séð um umsýslu. Kaupendur hafi í raun myndað byggingafélag, allir lagt í púkk og því eðlilegt að kostnaðarauka sé dreift jafnt á alla.

Nánast settir í nauðungarstöðu

Sigurður Helgi segir þennan málflutning ekki halda vatni. Óhagnaðardrifin félög fái engan afslátt. Allir þurfi að standa við gerða samninga. „Þessu máli hefur verið drepið svolítið á dreif. Þetta eru fasteignakaup samkvæmt skilgreiningu laga, ef annar aðilinn afhendir fasteign og hinn á að borga. Það verður ekki tosað og teygt. Það gilda engin sjónarmið um einhverja sameiginlega vegferð þó þetta sé óhagnaðardrifið félag.  Ég vann að samningu laga um fasteignakaup og hef nokkra innsýn í þetta. Þetta er engin sameiginleg óvissuferð þar sem allir verða að taka ágjöfina. Þarna er ákveðið kaupverð sett og gegn greiðslu þess eiga menn að fá fasteignina. Þarna er sá sem vanefnir að setja þeim sem efnir stólinn fyirr dyrnar, nánast settir í nauðungaraðstöðu.“ 

Ömurlegt mál

Málið sé ömurlegt í alla staði. „Sérstaklega þegar gamalt fólk er að sigla inn í ellina sem á að vera áhyggjulaust, að lenda í svona hít.“ 

Hann segir atburðarásina sýna fram á mikilvægi þess að kaupendur leiti lögfræðiráðgjafar áður en samningur er undirritaður. „Það er ekki dýrkeypt að fá einhvern með sér á frumstigi og maður óskar þess oft sem lögfræðingur og lögmaður þegar maður kemur og sér súpu og flækjur sem er búið að búa til að óþörfu hvað það hefði verið gott að koma á frumstigi og fyrirbyggja það.“ 

Í tilkynningunni frá Félagi eldri borgara er enn og aftur ítrekað að íbúðirnar séu þrátt fyrir allt á kostnaðarverði. Fram kemur að tilgangi félagsins yrði stefnt í voða lendi félagið í málaferlum við félagsmenn. Þá segir að félagið hafi ákveðið að aflétta kvöð um áframsölu íbúða, kaupendur hafi því kost á að tryggja hagsmuni sína með því að selja íbúðina aftur á hærra verði.

Verktakinn stóð við allt sitt

Skuld félagsins við verktakann nemur 400 milljónum og er fyrst og fremst til komin vegna þess að byggingarnefnd þess vanáætlað vexti. „Ein skekkjan er að semja við verktaka um verðtryggt verkefni og hafa enga fyrirvara í kaupsamningum,“ útskýrði Sverrir Hermann Pálmarson, ráðgjafi FEB í samtali við fréttastofu um helgina. Hann hafi aldrei séð slík mistök áður. Þá hafi orðið tafir á afhendingu lóðar og níu mánaða seinkun á framkvæmdum vegna lagna sem þurfti að færa, „en vísitalan í samningnum við verktakann byrjar samt sem áður að telja“.

Hann segir verktakann hafa staðið við allt sitt, þar hafi ekki verið nein framúrkeyrsla. 

Tapið gæti fallið á verktakann

Forsvarmaður verktakans MótX sagðist í samtali við mbl.is aldrei hafa lent í öðru eins. Þá sagði hann að fari Félag eldri borgara í þrot vegna málsins komi það niður á MótX, 400 milljónatap komi við reksturinn hjá fyrirtækinu. Forsvarsmaður MótX sagði óljóst hvort MótX gæti selt íbúðirnar án aðkomu FEB fari félagið í þrot. Í gær sagði sérfræðingur í samningarétti í samtali við fréttastofu að staða kaupenda að íbúðunum í Árskógum væri sterk, enda búið að þinglýsa samningum fyrir hverja selda íbúð. Íbúðirnar séu líklega þeirra hvort sem þeir skrifi undir skilmálabreytingu eða ekki því upphaflegur kaupsamningur gildi. 

Frétt af heimasíðu RÚV, sjá nánar hér: https://www.ruv.is/frett/felagid-og-kaupendur-ekki-saman-i-ovissuferd